Bræðrafélagið Vinir Ketils Bónda

~ Um félagið ~

Í upphafi var orðið,  og orðið var hjá Katli.  Ketill var orðið og sjáið hvað hefur orðið.

VKB er, eftir okkar bestu vitun, fyrsta og eina bræðrafélagið sem litið hefur dagsins ljós hér á fróni. En VKB er líka annað og meira, því það er einnig hagsmunasamtök fallegra, vel vaxinna karlmanna (sést það best á Forsetanum).  Samtökin hafa verið starfandi allt frá árinu 1998.

SAGAN
Upphaf félagsins má rekja til ásins 1998, þegar þeir Borgþór Ásgeirsson og Andri Hugo Runólfsson fundu Ketil Bónda liggjandi einn og yfirgefinn úti á miðri götu í Vestmanneyjabæ. Ekki leist þeim félögunum vel á hans ástand og ákváðu því, þar sem þeir voru á leið í samkvæmi, að bjóða honum með sér og veita honum jafnt húsakjól sem áfengi. Samkvæmi þetta var haldið að heimili Guðlaugs (Tóta Bróður) og var ekki annað að sjá en að Katli Bónda hafi verið skemmt þetta kvöld, þar sem hann var hrókur alls fagnaðar og lék við hvern sinn fingur. Eftir þessi, þeirra fyrstu kynni, fór Ketill Bóndi að vera reglulegur gestur á hinum fjölmörgu gleðistundum þessara mætu manna og þeirra vina, sem tekið hafði hann upp á arma sína. Senn leið að stærstu skemmtun allra stuðbolta heimsins, Þjóðhátíð í Eyjum, og hafði vinahópurinn af því tilefni ákveðið að setja á laggirnar svo kallaða þjóðhátíargrúbbu. Þegar kom svo að því að velja nafn á félagsskapinn, var ákveðið, til heiðurs traustum vini og félaga, að nefna hann Vinir Ketils Bónda. En þetta var því miður eina Þjóðhátíðin sem Ketill upplifði, þar sem að hann var myrtur nokkrum mánuðum síðar á hrottalegan hátt, af kvennmanni þar að auki, sem hafði illt eitt í huga. En eftir þennan hrottafengna atburð tvíelfdust Vinir Ketils Bónda og eru í dag ein voldugustu samtök Íslands. En þrátt fyrir þetta voðaverk eru þeir enn að berjast gegn illsku kvennkynsins sem virðist óútrýmanleg.
Eftir dauða Ketils samdi einn vinur hans eftirfarndi ljóð í minningu hans:

„Hann er dauður!
Dauður hann er,
hann er ekki lifandi lengur.
Í blóma lífsins var
en nú er hann þar
á Valkenburg!“

Upphafið
Upphafið: Fyrstu Þjóðhátíðarbúningar félagsins

ÞJÓÐHÁTÍÐIN
Allt frá stofnun hefur starf félagsins að mestu leiti snúist um helsta menningarviðburð hins vestræna heims, sjálfa Þjóðhátíðina. Og hafa félagarnir gert það að vana sínum að klæðast búningum og fagna þessari hátíðarstund ásamt öðrum Þjóðhátíðargestum. Félagið var formlega stofnað á Þjóðhátíð 1998 og voru þá meðlimir þessir: Guðjón Kristinn Ólafsson, Ragnar Benediktsson, Birkir Atlason, Finnur Freyr Harðarson, Friðberg Egill Sigurðsson, Arnar Valgeir Sigurjónsson, Borgþór Ásgeirsson, Guðlaugur Þórarinn Rúnarsson og Sindri Freyr Ragnarsson. Búningurinn fyrsta árið var úr stórmyndinni Scream og vakti mikla lukku.

Þjóðhátíðin 1999 var svo tekin með trompi. Töluvert var þó um hrókeringar innan félagsins, þar sem þeir Arnar Valgeir Sigurjónsson, Friðberg Egill Sigurðsson og Finnur Freyr Harðarsson lögðu skóna á hilluna og Birkir Atlason fór erlendis. Í þeirra stað voru teknir inn í raðir félagsins þeir Sigurhans Guðmundsson og Guðmundur Kristján Eyjólfsson. Þetta árið var hugmyndin að búningunum einnig fengin úr sjónvarpinu, en að þessu sinni úr Fóstbræðrum. Urðu bændurnir þjóðlegu fyrir valinu og ekki er hægt að segja annað en að þessir búningar hafi slegið í gegn, því þetta árið hrepptu Vinir Ketils Bónda hinn eftirsótta titil „Íslandsmeistarar í Búningakeppni“. Af því tilefni voru félagar teknir upp á svið þar sem þeir sungu með hárri raust  hið sívinsæla lag "Föðurlandsvinurinn" fyrir framan um 9.000 manns og eru það fjölmennustu tónleikar sem haldnir hafa verið á vegum félagsins.

Árið eftir snéri Birkir Atlason aftur til starfa, auk þess sem Jóhann "Gufa" Halldórsson gekk í raðir félagsins. Ákváðu Vinir Ketils Bónda af því tilefni að taka upp þann sið að vígja menn formlega inn í félagið. Hefur sá siður haldist síðan, og reynst mörgum nýliðanum þrautin þyngri. Enn leituðu Vinir Ketils Bónda í imbann eftir hugmyndum að búningum. Þetta árið var Hrói Höttur í sokkabuxum fyrir valinu og vöktu búningarnir óneitanlega athygli.

Árið 2001 mættu Vinir Ketils Bónda til Þjóðhátíðarinnar kátir sem aldrei fyrr. Enn var nokkuð um mannabreytingar, þar sem Guðjón Ólafsson settist í helgan stein og Friðberg kom aftur inn, auk þess sem inn voru teknir 4 nýjir meðlimir, þeir Símon "Tvímon" Halldórsson, Helgi Ólafsson, Þórir Ólafsson og Andri Ólafsson. Enn á ný var leitað á náðir sjónvarpsins eftir innblástri í búningahönnun og voru búningarnir ekki af lakari taginu þar sem fyrir valinu urðu engir aðrir en Skytturnar þrjár úr sígildri skáldsögu Alexandre Dumas.

Skytturnar þrjár
Skytturnar: Þjóðhátíðarbúningur félagsins 2001

Árið eftir víguðst tveir mætir menn, þeir Kolbeinn Ólafsson og Víkingur Másson, inn í félagið í eldi og brennistein, sem, samkvæmt minni fróðustu manna, rigndi á Þjóðhátíðargesti þetta árið. En þrátt fyrir þetta undarlega regn skemmtu sér allir alveg hreint gífurlega vel, eins og ávalt á Þjóðhátíð - ekki síst Vinir Ketils Bónda, sem spásseruðu um þetta árið dulbúnir sem dvergarnir 7 úr þekktu ævintýri, þótt bræðurnir hafi verið 13 á þessum tíma.

Árið eftir, 2003, drógu Vinir Ketils Bónda sig út úr búningakeppninni, þar sem þeir höfðu tekið eftir því að helstu keppinautar þeirra um titillinn væru orðnir táningsstúlkur (þá er ekki átt við Sigurð Björn). Þá var saumaður nýr bóndabúningur eins og sá sem vann keppnina 1999 á þá félaga sem vildu, og hann tekinn formlega upp sem opinber búningur félagsins. Þetta ár festi félagið kaup á stærsta Þjóðhátíðartjaldi heims af Gáfumannafélginu, en það tjald hefur síðan hýst margar ógleymanlegar og löngu gleymdar skemmtanir. Þetta árið var mikil fjölgun innan raða félagsins, þar sem fimm menn voru kosnir inn í félagið á aðalfundi og voru vígðir inn í félagið á Þjóðhátíðinni. Þetta voru þeir Einar Örn Ágústsson, Gunnar Már Kristjánsson, Hannes Kristinn Eiríksson, Hafþór Halldórsson og Sigurður Björn Oddgeirsson.

Árið eftir var enn þónokkur fjölgun í röðum félagsins þegar fjórir nýjir meðlimir voru kosnir í raðir félagsins. Það voru þeir Andri Hugo Runólfsson, Daði Guðjónsson, Grettir Jóhannesson og Hafsteinn Daníel Þorsteinsson og voru þeir vígðir að hætti Margeirs skipstjóra. Þessa Þjóðhátíðina ullu Vinir Ketils Bónda miklu fjaðrafoki með birtingu meintrar áfengisauglýsingar í Þorskahefti, sem kom í fyrsta skipti fyrir augu almennings þessa Þjóðhátíðina. Vinir Ketils Bónda voru mjög áberandi þessa Þjóðhátíðna, því auk útgáfu á Þroskahefti þá seldu þeir kaupóðum Þjóðhátíðargestum jafnt ægifagra boli og lífsnauðsynlegt  Þjóðhatíðarloft á dósum.

Á Þjóðhátíðinni 2005 höfðu Vinir Ketils Bónda aðeins hægar um sig, þó nýr árgangur Þjóhátíðarlofts liti dagsins ljós. En þeir tóku þó við langsamlega fallegasta Þjóðhátíðarmannvirki Herjólfsdals, sjálfum Vitanum af Svartagenginu svo nefnda. Vinir Ketils Bónda  mættu beint úr vígslu tveggja nýrra meðlima, þeirra Ástþórs Ágústssonar og Jóns Helga Gíslasonar “Weis“ Feldskera 481-BJÓR, á vígslu Vitans þar sem þeir tóku formlega við honum auk allra pappíra sem honum fylgja.

Í vikunni fyrir Þjóðhátíðina 2006 kom svo út nýtt og enn glæsilegra Þroskahefti sem var dreift í hvert hús í Vestmannaeyjum rétt fyrir Þjóðhátíð. Heyrðist hrifningar- og fagnaðarkliðurinn færast yfir bæinn þegar fólk tók heftið úr bréfalúgum sínum og póstkössum og leit þessa miklu snilld augum. Þetta árið vígðust inn tveir nýir meðlimir í félagið, þeir Elías Ingi Björgvinsson og Ívar Örn Leifsson og var það sannkölluð hjónavígsla. Vinir Ketils Bónda sáu alfarið um Vitann þetta árið og stóðu fyrir glæsilegustu vígslu á mannvirki í Dalnum sem sést hefur, þegar sameignlega vígsla Vitans og VKB-tjaldsins fór fram.

Bjarnabófar
Bjarnabófar í lögguleik.
Þórir, Boggi og Haffi, Þjóhátíðin 2005.

AÐALFUNDUR
Fyrsti aðalfundur félagsins var haldinn sumarið 2002 og fór hann fram með látum og látalátum.  Hart var barist um forsetasætið á umræddum fundi og hreppti enginn annar en Hr. Helgi "Léttfeti" Ólafsson titilinn, en aðrir frambjóðendur voru Borgþór "Sífulli" Ásgeirsson og Guðmundur "Langi Jón" Eyjólfsson. Þá fékk sem sagt Forsetinn loksins eitthvert forsetaembætti, en það er talið hafa hjálpað honum mikið í kosningabaráttunni að hafa viðurnefnið forseti. Á fundinum var einnig kosið um önnur mikilvæg mál, svo sem hvernig búningum ætti að klæðast á komandi Þjóðhátíð og um inngöngu nýrra félaga. Úr sérstaklega mörgum umsækjendum var að velja  þetta árið, en færri komust að en vildu vegna strangra inntökuskilyrða. Þeir sem komust inn það árið voru ekki af verri endanum, en það voru þeir Kolbeinn "Kallaðu mig bara Don" Ólafsson og Viggó "Dvergasafnari" Másson og voru þeir vígðir inn í félagið þann 2. ágúst kl. 16:50 að staðartíma.  Fyrsti heiðursfélagi VKB var einnig kosinn einróma af félögum á umræddum fundi. Það var ekki ómerkari maður en Guðjón "Bæjó" Hjörleifsson.

Í tilefni fyrsta fundarins var flutt hátíðarræða, sem Borgþóri og Guðmundi var treyst fyrir að semja og flytja, enda öldungsins traustverðugir menn þar á ferð.  Þar flugu fleyg orð og má með sanni segja að þar hafi verið húllum hæ en ekki Andri "hæ". Að fundinum loknum var lyft könnum, skálað og sungið með hárri raust "Vi er hvide, vi er röde, vi stå sammen på tennesfielden" og "Careless whisper".  Þetta kvöld kynntist Kolbeinn einnig nýjum vini, Ottó, og áttu þeir góða samverustund þótt stutt hafi verið.

Aðalfundir hafa nú verið haldnir á hverju ári og umfang þeirra og skemmtunin að þeim loknum vaxið ár frá ári. Enn hefur engum tekist að velta Helga úr stóli forseta, þótt ýmsir hafi gert mis vel heppnaðar tilraunir til þess. Næstur því komst Sigurður Björn nú fyrir skemmstu, þegar hann náði afar óvæntum árangri í kosningunni. Sérstaklega óvæntum fyrir hann, þar sem hann vissi ekki að hann væri í framboði fyrr en gengið var til kosninga. Sigurður stóð sig mun betur en aðrir mótframbjóðendur Helga, svo sem Gunnar Már, sem hlaut engin atkvæði á sínum tíma, og Kolbeinn, sem hlaut 2 atkvæði, þó hann hafi ekki þorað að kjósa sig sjálfan til að sigurinn yrði ekki of afgerandi, þar sem honum fannst hann finna fyrir miklum stuðningi.

Boggi og Þórir á aðalfundi
Borgþór og Þórir á aðalfundi félagsins 2005

JÓL OG ÁRAMÓT
Sú hefð hefur skapast og verið vaxandi undanfarin ár að fagna komu jólanna á veglegan hátt innan félagsins. Þetta hófst með því að VKB menn fjölmenntu á jólahlaðborð fyrir jólin 2001 og héldu þaðan á hinn sáluga Mánbar þar sem fjörinu var fram haldið og skemmt sér fram á nótt. Síðar, þegar drjúgur hluti félagsmanna var kominn í háskólanám og var ekki að skila sér til baka á heimahagana í Eyjum fyrr en rétt fyrir jól, tóku litlujól VKB við af jólahlaðborðum, með tilheyrandi pakkaskiptum og gleði. Í dag eru litlujólin orðin einn af stærri póstunum í starfi félagsins og menn sumir hverjir farnir að láta sig hlakka hálft árið til þeirra.

Á gamlársdag 2001 klifu nokkrir veðurbarðir drengir með stóra drauma og von í hjarta upp Helgafellið. Til stóð að rita upphafsstafi þeirra ástsæla félags með eldi í hlíðar fjallsins. Meðferðis var pappakassi fullur af friðarkertum, brúsi af zippo-bensíni og einn zippo-kveikjari. Ekki varð úr sú bálför sem drengirnir ungu höfðu látið sig dreyma um og næstu árin fór fram mikil tilrauna- og rannsóknarvinna til að reyna að fullkomna merkið á fjallinu. Lakastur var árángurinn í því á gamlárskvöldi 2004, þegar hönnunin sem verkfræðideild félagsins hafði legið yfir vikum saman klikkaði svo hrapalega að ekki tókst með nokkru móti að kveikja í merkinu. Engir eldar sáust í hlíðum fjallsins það árið, utan varðeldsins sem svekktir VKB menn ornuðu sér við meðan þeir reyndu að hughreysta hvorn annan áður en haldið var niður. En merkið sást þó vel í björtu í langan tíma á eftir, við lítinn fögnuð bæjaryfirvalda, sem voru á endanum farin að hóta lögsókn á hendur félagsins fyrir sjónmengun. Birkir Atlason lagði það svo loksins á sig að klífa fjallið og rífa merkið niður.

En fögnuðurinn var þeim mun meiri árið eftir þegar VKB mönnum tókst loksins að sína bæjarbúum hvernig þeir höfðu séð merkið fyrir sér allt frá fyrstu ferðinni upp hlíðar fjallsins 2001. Fögnuðurinn var reyndar svo mikill að hann heyrðist um alla eyju. Sagt var að lætin hefðu verið svo mikil að það hefði þurft að gera hlé á flugeldasölunni í Skátaheimilinu á meðan þau gengu yfir, því menn heyrðu ekki hvort verið væri að biðja um Trausta eða Tralla.

VKB merkið á Helgafelli
VKB merkið og flugeldasýning á Helgafelli,
gamlársdagur 2005 .

KLÚBBAR
Nokkrir undirflokkar hafa verið stofnaðir af Vinum Ketils Bónda þar sem að kolsvartur almúginn hefur fengið að fljóta með. Hér verður rennt yfir þá helstu og þeirra tilgang og starfsemi.

Ferðaklúbburinn Indriði byrjaði reyndar óformlega um sumarið 1997 og var þá farin ein allsvakaleg Njálsbúðarferð sem er enn í hávegum höfð. Klúbburinn varð síðan formlegur við stofnun VKB. Indriði hefur staðið fyrir ferðum um gjörvallan heim og þá má helst nefna ferð í hana svörtustu Afríku árið 2000 og að sjálfsögðu hina alræmdu Spánarferð sem var einnig farin á 99 ára afmæli Ísfélagsins árið 2000. Indriði hefur einnig staðið fyrir fjölmörgum ferðum í höfuðborgina og um allt Ísland. Í þessum ferðum hefur aðalmarkmiðið verið að kynnast menningu annara samfélaga og miðla af þekkingu okkar á hinum ýmsu málefnum, svo sem búfénaði, þó að Birkir Atlason hafi kannski aðallega verið í því.

Matarklúbburinn Urriði var stofnaður af hungruðum meðlimum VKB sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu veturinn 2004. Starfsemi klúbbsins snérist í fyrstu aðalega um að leita uppi bestu veitingastaði borgarinnar og miðla upplýsingunum til annarra meðlima. Klúbburinn stendur reglulega fyrir miklum átveislum, þar sem sársvangir námsmenn, sem er uppistaða klúbbsins, reyna að troða í sig sem mest þeir mega. Urriði stóð fyrir mikilli hátíð þegar fréttir bárust af því á sínum tíma að til stæði að opna Burger King stað á Íslandi, en nokkrir meðlimir Urriða höfðu kynnst lystisemdum Burger King á ferðum sínum til fyrirheitna landsins með Indriða. Sú hátíð stendur enn yfir hjá sumum meðlimum Urriða, og er nærtækast að minnast á Sigurð Björn í því sambandi.

Runkklúbburinn Handriði. Starfsemi Handriða hefur að mestu farið leynt, og hvílir mikil dulúð yfir starfsemi hans sem og meðlimum. Í raun veit enginn hvað fer fram innan klúbbsins, né hverjir séu meðlimir hans. Þó hefur sú saga gengið lengi að Birkir Atlason hafi um nokkurra ára skeið veitt klúbbnum forstöðu. En það verður engin afstaða tekin til sannleiksgildis þeirra sögusagna hér.

Kátir Karlar er stjórnmálaarmur félagsins og hafa þeir mikið látið af sér kveða. Þeir buðu fram til kosninga í nemendafélag FÍV árið 2000 en mörgum til mikillar undrunar og vonbrigða náðu þeir engum inn. En þeir láta það ekki á sig fá og stefna nú í bæjarstjórn og hefur verið orðrómur á kreiki að Helgi Forseti hafi huga á bæjarstjórastólnum til að hafa hann innan VKB eins og hann var um 12 ára skeið, meðan Guðjón Hjörleifsson sat í stól bæjarstjóra, þó hann hafi nú staðið upp stöku sinnum. Helstu baráttumál Kátra Karla munu vera að viðhalda og bæta stöðu karlmanna í þjóðfélaginu og afnema skatta og tolla á áfengi.

Bowie-kór Vestmannaeyja var stofnaður snemma árs 2000 og hefur goðið David Bowie sér til fyrirmyndar í leik og starfi. Kórinn mun eingöngu syngja Bowie-lög og þykja þeir vel að þeim heiðri komnir að syngja Bowie. Þó svo að kórinn hafi ekki enn haldið opinbera tónleika, þá hafa þeir oft tekið lagið á meðal almennings, sér og öðrum til mikillar skemmtunar. Kórinn hefur reyndar ekki verið of duglegur við formleg fundarhöld og uppákomur. En auk stofnfundarins árið 2000 hafa farið fram tveir fundir með þriggja ára milli bili, þ.e. árin 2003 og 2006.
Stefnt er að því halda næsta fund árið 2009. Þeir sem áhuga hafa á að ganga í kórinn er bent á að senda tímanlega inn skriflega umsókn.

[ - Aftur á forsíðu - ]